Landmannalaugar.info Google

 Landmannaafréttur 
Staðhættir
Veðurfar
Saga landsins
Saga lífsins:
Gróður
Fuglar
Fiskar
Spendýr
Saga mannsins
Ferðamál:
Friðlandað Fjallabaki
Umgengni
Aðstaða
Innkaup
Gisting
Samgöngur
Akstursleiðir
Gönguleiðir
Reiðleiðir
Hjólreiðar

Allt um Landmannaafrétt


Umhverfis Landmannalaugar
(Landmannaafréttur sunnan Tungnaár, Friðland að Fjallabaki)

Ingólfur Einarsson, 1979.  Landmannaafréttur. 
Sunnlenskar Byggðir V, bls 140-147.  Búnaðarsamband SuðurlandsV, 1987.

Landmannaafréttur

Takmörk Landmannaafréttar eru þessi: Úr Ófærugili í Tröllkonuhlaup, eftir Þjórsá í Tungnaá, eftir Tungnaá í Blautukvísl, eftir Blautukvísl í Blautukvíslarbotna, þaðan í Þóristind og þaðan sjónhending í Þveröldu við norðausturbotn Þórisvatns, úr Þveröldu í Svartakamb þar sem hann er hæstur, þaðan þvert í Tungnaá, síðan eftir Tungnaá í Kirkjufellsós og eftir honum í Kirkjufellsvatn, þaðan eftir Hábarmi í Torfajökul þar sem hann er hæstur, frá Torfajökli í upptök syðri kvíslar Markarfljóts, þaðan í Krakatind og þaðan í Ófærugil.

Þetta er gífurlega víðáttumikill afréttur, að miklum hluta háfjöll og reginöræfi og víða langt á milli bithaga og æði torfært sums staðar, enda stendur fyrsta leit yfir í heila viku: fjallreið hefst föstudag í 22. viku sumars og réttað er í Landréttum föstudaginn næsta. Landmenn og Holtamenn reka fé sitt á Landmannaafrétt, og búendur tveggja bæja í Rangárvallahreppi, Næfurholts og Hóla, gera þangað fjallskil.
Fyrrum munu Landmenn einir hafa notað afrétt þennan, en vitað er að á fyrri hluta 19. aldar að minnsta kosti eru bændur úr Holtum farnir að reka fé þangað, en Landmenn hross á Þóristungur og jafnvel fé á Holtamannaafrétt. En eftir fellinn 1882 hafa Landmenn ekki rekið á Tungurnar.
Árið 1892 var Holtamannahreppi hinum forna skipt þannig, að Ásahreppur var myndaður úr suðurhlutanum. Eftir þá skiptingu í Holta- og Ásahrepp munu ráðamenn hinna nýju hreppa hafa ákveðið að Áshreppingar skyldu reka fé á Holta­mannaafrétt en Holtamenn á Landmannaafrétt. Hefur sú tilhögun orðið að fastri hefð, með góðu samkomulagi.
Úr Djúpárhreppi, sem myndaður var árið 1936 úr suðurhluta Ásahrepps, hafa menn rekið á Holtamannaafrétt.

Inn á Landmannaafrétt liggur Landmannaleið eða Fjallabaksvegur nyrðri upp úr Landsveit: um Rangárbotna og svo til austurs norðan Sauðafells, um Sölvahraun og sunnan Valafells og Valahnúka, fram hjá Nýjahrauni frá 1878, yfir suðurtagl Lambafitarhrauns frá 1913, um Svalaskarð milli Sauðleysna og Krókagiljabrúnar að Landmannahelli, en þangað eru 44 km frá Galtalæk.

Stærstu samfelld gróðursvæði Landmannaafréttar eru Sölvahraun og Valafell og svo Kringlan svonefnda, sem er nálega kringlótt svæði um miðbik afréttarins. Að norðan er Kringlan lukin háum móbergsfjöllum, frá vestri til austurs: Sauðleysum, Herbjarnarfelli, Löðmundi og Hellisfjalli, Lifrafjöllum og Dómadalshálsi. En sunnan að Kringlu eru líparítfjöll, frá austri til vesturs: Mógilshöfðar og Rauðfossafjöll, en vestast Krókagiljabrún sem er úr móbergi. Upp af marflatri sléttu Kringlunnar standa fáein móbergsfell: Sáta, Langasáta og Sátubarn og eru algróin.

Löðmundur er grænn og gróinn, einkum að framan og austan, og er hann eitthvert svipmesta fjallið á afréttinum, enda meðal hinna hæstu (1074 m).
Kringlan er vatnasvið Hellis­kvíslar, sem rennur fram hjá Landmannahelli og vestur um Svalaskarð sunnan undir Sauðleysum, yfir Lambafitarhraun og hverfur tíðum ofan í sandorpin Tungnaárhraun norður af Valafelli. Í hana á móts við Sauðleysur rennur Rauðfossakvísl, sem kemur sunnan frá hinum háu, kuldalegu og gróðursnauðu Rauðfossafjöllum.

Önnur vatnsföll eru ekki á vesturhjara afréttarins að telja þurfi, en fáein stöðuvötn eru þar, flest með einhverju lífi, og eru kennd við nærliggjandi fjöll: Hrafnabjargavatn austan undir Hrafna­björgum norður af Sauðleysum, Sauðleysuvatn, Herbjarnarfellsvatn og Löðmundarvatn. Undirfell Löðmundar að norðan eru Dyngjur, en austan þeirra Eskihlíð og austan hennar Eskihlíðarvatn. Uppi á Lifrafjöllum er Lifrafjallavatn, og í Dómadal, austan Lifrafjalla og Dómadalsháls, er einnig dálítið vatn, Dómadalsvatn.
Lítill pollur sem fáir ferðamenn þekkja er Laufdalsvatn milli Herbjarnarfells og Dyngna.

Norðan þessa fjalllendis, að Tungnaá og vestur undir Þjórsá, eru sandorpin Tungnaárhraun, en upp úr þeim standa fáein móbergsfell, frá austri: Tungnaárfell, Einbúi, Litla- og Stóra-Melfell, Sigalda, Hrauneyjafell, Langalda. Þetta hrauhsvæði er nefnt einu nafni Hraunin og var heldur vont leitarsvæði: víðáttumikið, seinfarið og vatnslaust. Melhnubbar voru þar á stöku stað, og fitjarnar með Tungnaá fremur snöggar; frá austri: Hrauneyjar, Sultarfit, Ferjufit og Vaðfit.
Árið 1970 lét Landgræðslan girða mestan hluta Hraunanna og hóf þar uppgræðslu. Það starf hefur borið góðan árangur og standa vonir til þess að innan fárra ára verði hægt að nýta hluta friðunarsvæðisins. Þegar landgræðslumenn dvelja þar efra við störf sín búa þeir í Áfangagili suðvestan undir Valafelli, enda er þar ágætt sæluhús, og raunar tvö fremur en eitt. Þarna var löngum fyrsti og einnig síðasti náttstaður fjallmanna í haustleitum, en nú er af sem áður var.

Þegar vesturfjallið er smalað hafa fjallmenn aðalbækistöð við Landmannahelli, sem er sunnan í Hellisfjalli. Fyrrum var hellirinn sjálfur, sem hvorki er stór né tilkomumikill, notaður sem hestageymsla, og voru taldir rúmast þar um 70 hestar, mátti jafnvel troða þar inn 80 ef á lá. Fyrir kom að menn sváfu í afhelli inn úr aðalhellinum, og eitt sinn var lítill kofi framan við munnann.
En 1907 var á landssjóðs kostnað byggt sæluhús vestan við hellinn og endurbyggt síðar. Síðan hafa risið þarna fleiri hús á vegum einstakra bænda, en árið 1974 var byggt stórt sæluhús, þar sem hægt er að geyma meira en 40 hesta í öðrum endanum, en í hinum hluta hússins eru 23 svefnpláss auk eldhúss. Þess má geta að nú á dögum þurfa fjallmenn ekki að hafa fyrir því að matreiða sjálfir eða lifa á skrínukosti; nú fylgja þeim matráðskonur á fjallið og telja þeir þau umskipti mikil og góð. Konur taka einnig þátt í smölun.
Eigendur þessa húss eru Holta- og Landmannahreppur að hálfu og Veiðifélag Landmannaafréttar að hálfu.

Austan við hellinn eru þrjú fjárbyrgi og hafa verið þar síðan eftir fellinn 1882 er hætt var að nota fjárbyrgi þau sem leifar sjást af undir austustu Sauðleysunni, 3-4 km suðvestar. Árið 1966 var sett stór fjárgirðing kring um Sátu, sunnan Helliskvíslar gegnt hellinum. <...>

Landlýsingin hefst á ný í Landmannalaugum:

Talsvert hefur fitin látið á sjá vegna ágangs Jökulgilskvíslar og átroðnings manna, einkum eftir að þangað var lagður vegur fær öllum bílum árið 1970. Þarna undir brúninni stendur borghlaðinn sælukofi lítill, er tók þrjá menn, vinalegur forngripur, byggður um 1850. Árið 1905 var byggður kofi sunnar, undir hraunbrúninni. Hann brotnaði fljótlega undan snjófargi, var endurbyggður 1907 en fór á sömu leið. Þá var 1927 byggt hús uppi á brúninni með svefnpalli yfir hesthúsi, en 1951 reisti Ferðafélag Íslands sæluhús á fitinni þar fyrir neðan, hitað upp með laugarvatni. Það tók allt að 40 næturgesti. Árið 1969 var það hús flutt sunnar og er síðan notað sem hesthús, en Ferðafélagið reisti nýtt og stærra hús á sama stað og áður. Þar eru 110 svefnpláss samkvæmt teikningu og öll aðstaða hin fullkomnasta.Hesthúsið eiga Landmenn og Holtamenn að hálfu hvor hreppur.

Austan Eskihlíðar og norðan eru Hnausar, móbergshnúkar, en síðan tekur við gróðurlaus sandslétta að Tjörvafelli, háu algrónu fjalli, sem stingur fagurlega í stúf við dökka auðnina umhverfis. Norðvestan undir því er stöðuvatn í stórum sprengigíg og má enn kallast nafnlaust. Það hefur þó verið nefnt ýmsum nöfnum ("Bláhylur" stendur á nýjum kortum), en af þeim nafngiftum virðist Tjörvafellspollur komast einna næst því að vera réttnefni. Austur af Tjörvafelli er annar og miklu stærri sprengigígur með vatni í botni, Ljótipollur. Suðvestan hans rís Norðurnámur, allmikið fjall.<...>

Sunnan Litlhöfða (1159 m), sem er annar Mógilshöfða (hinn er Stórhöfði , 1143 m) og austan Rauðfossafjalla (1163-1230 m) eru Reykjadalir, og voru fyrrum kallaðir "í Torfajökli", en það orðalag heyrir sögunni til vegna bráðnunar jökla undanfarna áratugi.
Reykjadalir eru mjög giljum grafnir eins og raunar allt þetta líparítsvæði, en í Dölunum falla allar kvíslar í Markarfljót nema sú vestasta, sem kölluð er Dalakvísl og rennur í Rauðfossakvísl.
Hagasnapir eru einkum meðfram fljótinu og þverkvíslum þess og í giljum og víða kringum hveri eða volgrur, en hér er stærsta og öflugasta háhitasvæði á Íslandi og hverareykir óteljandi.
Landmenn smala Reykjadali alla, en svæði þetta er oft snjóakista mikil, enda skammt til jökla og veður oft hörð og þokur tíðar. Hið ótrúlega marglita landslag líparíthálendisins norður og vestur af Torfa­jökli er hrikalegur undraheimur hárra fjalla, djúpra gilja og brattra egghvassra hryggja á milli gilja, og er þetta allólíkt hinu landlæga norðaust-suðvestlæga skipulagi móbergsfjalllendisins allt umhverfis.

Suður í þetta ljósgrýt­issvæði skerst Jökulgil frá Laugum í stórum boga til suðausturs, suðurs og vesturs og rennur eftir því Jökulgilskvísl norður til Tungnaár austan við Norðurnám. Stóra- og Litla-Brandsgil ganga suðvestur úr Gilinu skammt frá Laugum og Sveinsgil skerst suðaustur úr Jökulgili undir Hábarmi (1192 m), en vestustu upptakagil Jökulgils eru Stóra-Hamragil vestan við Hatt og Litla-Hamragil sem skerst vestur í stefnu á Reykjafjöll (1163 m) og Hrafntinnusker (1128 m). Frá Kaldaklofsfjöllum og Torfajökli falla einnig kvíslar í djúpum giljum til Jökulgilskvíslar og heitir þar Kaldaklof og Hnausar. Þessar slóðir í veldi Torfajökuls og Kaldaklofsjökuls eru einhverjar hinar torfærustu á Landmannaafrétti, en ekki gróðurríkar.
Helstu grasvinjar í Gilinu eru í Vesturbarmi, Sveinsgili, Hattveri, Sauðanefi, Rótabrekkum, Uppgöngutorfu og Hnausum.

En ótrúlega víða flækist sauðkindin þó ekki sýnist alltént björgulegur bithaginn. Mikið graslendi er á Kýlingum austan Jökulgilskvíslar, norður undir Tungnaá, kringum Kýlingavatn og í fellunum Litla- og Stóra-Kýling. Sunnan við þau fell rís hið tígulega líparítfjall Kirkjufell (964 m). Austan þess rennur Kirkjufellsós úr Kirkjufellsvatni norður í Tungnaá. Dálítið gras er líka í Halldórsgili, milli Kirkjufells og Austurbarms. Sá hluti Landmannaafréttar, sem er innan Tungnaár, nefnist einu nafni Öræfi, en kjarni þess svæðis eru Veiðivötn. Þau liggja í löngum slakka frá suðvestri til norðausturs. <...>

Fram um 1908 fóru Vatnakarlar yfir Tungnaá á Kvíslarvaði sunnan Blautukvíslar. Á síðasta áratug 19. aldar fannst Bjallavað suðvestan við Vesturbjalla og var það farið uns hið bílfæra Hófsvað undan suðvesturrótum Vatnaaldna fannst 1950. Tveir bátar voru settir við ána skammt ofan við Bjallavað, annar 1934, hinn 1936. Vegna vatnsmiðlunarmannvirkj a við Þórisvatn í sambandi við virkjun Þjórsár við Búrfell og Tungnaárvirkjunar við Sigöldu, og nú á næstunni Hrauneyjafossvirkjunar, var sett brú á Tungnaá 1968 vestan undir Sigöldu, neðan við Sigöldufoss, og fara þá leið allir sem nú ferðast til Veiðivatna. Fyrrum var áin riðin á Svartakrók norðaustur frá Tjörvafelli. En þar var naumast fast vað, heldur farið eftir aðstæðum hverju sinni, og heldur sjaldan. <...>

Í ritinu Göngum og réttum, 1. bindi, er lýst tilhögun við smölun á Landmannaafrétti fram til þess tíma er upprekstur þangað var bannaður vegna sauðfjárveikivarna árið 1942. Liðu nítján ár uns upprekstur var leyfður að nýju, árið 1961. Árið 1971 tók gildi sú tilhögun við smölun afréttarins, er nú verður rakin í fáum dráttum: Föstudag í 22. viku sumars fara átta menn með um það bil 40 hesta í Landmannalaugar, en þar er gist fyrstu þrjár nætur fjallferðarinnar. Daginn eftir, laugardag, koma 14 menn í bílum í Laugar, og eru þá fjallmenn orðnir 22.

Tveir kóngar, sinn úr hvorum hreppi, skipa í leitir, og þenn­an dag eru smalaðir Kýlingar allt austur að Kirkjufellsósi, Halldórsgil, Austur- og Vesturbarmur, Brandsgil, Vondugil og Suðurnámur, og er féð rekið í rétt sem er vestan við Jökulgilskvísl skammt frá Námshrauni austan Suðurnáms. Réttin er af sumum kölluð Sólvangur, en það er nýnefni.
Á sunnudag eru Jökulgil og Sveinsgil smöluð, og um 5 menn fara út að Landmannahelli með féð og smala Norðurnám, Tjörvafell og Norðurnáms­hraun og með götunni út að Helli. Þeir eru sóttir að Hellinum um kvöldið og allir gista áfram í Laugum.
Á mánudag taka menn sig upp og flytja út að Helli. Þá er farið í áreið á svæðið, sem smalað var daginn áður, og smalaðir Höfðarnir (Mógilshöfðar), Fitjarnar (Klukkugilsfit og annað sléttlendi Kringlunnar), Hnausar, Eskihlíð og Lifrafjöll, og Sáturnar smalaðar út að Rauðufossum og Helliskvísl.
Á þriðjudag smala menn Reykjadali, Rauðfossafjöll, Dyngjur, Löðmund, Hellisfjall og Herbjarnarfell.
Á miðvikudag koma um 6 menn úr byggð til hjálpar við að reka fram. Þennan dag er farið að Krakatindi og í Krókagilin, ennfremur í áreið á Löðmund, Dyngjur, Hellisfjall og Herbjarnarfell, og smalaðar eru Sauð­leysur, Hrafnabjörg, Valafell, Valahnúkar, Sölvahraun og Skjólkvíar. Féð er allt rekið í girðingu í Sölvahrauni og geymt þar um nóttina, en menn fara í bílum inn að Helli, þar sem þeir gista þessa síðustu nótt fjallferðarinnar.

Haustið 1978 fékkst leyfi til að geyma safnið í sandgræðslugirðingu vestan við Sölvahraun og var að því mikið hagræði. Á fimmtudag er allt safnið rekið fram til byggða. Þá er og smalað Sauðafell að afréttarmörkum í Ófærugili.
Á föstudag í 23. vikunni er réttað í Réttanesi við Ytri-Rangá eins og fyrr var að vikið. Smölun á Veiðivatnasvæðinu er hagað þannig, að nokkrir menn af Landi og úr Holtum fara um svæðið á einum degi, ýmist fyrir eða eftir fjallferð eftir því sem henta þykir. Þeim, sem vilja fræðast nánar um örnefni og landslag á Landmannaafrétti, skal bent á Árbók Fornleifafélagsins 1928, Árbækur Ferðafélagsins 1933, 1940, 1945 og 1976, Göngur og réttir I (1948) og tímaritið Goðastein, 2. hefti 1965).
í febrúar 1979. Ingólfur Einarsson.


Veðurfar
Eftirfarandi klausa er tekin orðrétt upp úr bæklingi Náttúruverndar ríkisins um Friðland að Fjallabaki: 

"Meðalhiti í Friðlandi að Fjallabaki er líklega 0 - 1°C.  Júlí er hlýjasti mánuður ársins og er meðalhiti hans 7 - 8°C.  Meðalhiti köldustu mánaðanna, janúar og febrúar, er hins vegar um -6°C.  Rétt er að hafa hugfast að meðalhiti einstakra mánaða er ákaflega breytilegur frá ári til árs.  Frost getur komið hvenær ársins sem er.  Á Torfajökulssvæðinu á suðausturhorni friðlandsins er ársúrkoma sennilega á milli 2 - 3 þús. mm en minnkar síðan ört til norðurs og norðvesturs og er líklega komin niður í þúsund mm í nyrsta hluta friðlandsins." 

Þeir hlutar afréttarins sem ekki eru innan friðlandsins eru einkum nálægt hinum fyrrnefndu norð- og norðvestlægu svæðum, þar sem þurrara er.  Þar, á söndunum, getur einnig orðið hvassast, með tilheyrandi sandstormum og skýstrokkum á sumrin og haustin.  Hitatölurnar eru nærri lagi, þó aðeins hafi hlýnað á landinu síðan þessi orð voru skrifuð(febrúar 2003).

Veðurstofa Íslands.www.vedur.is

upp

 

 

www.vegagerdin.is
 
   Nína Ivanova & Ómar Smári Kristinsson © 2003—2011

last updated - 01.10.2011