Drög
Gamansaga
Gamansaga úr ferðum hjá ferðafélaginu Ferlir en FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík
Félögum stóð til boða að kaupa derhúfur hjá félaginu á sínum tíma.Til gamans má geta þess að tvær húfur, sem týndust, . komu í leitirnar skömmu síðar. Aðra hafði eigandinn lagt frá sér í Brennisteinsfjöllum. Þremur dögum síðar var bankað upp á hjá honum og honum afhent húfan. Hina fann eigandinn á snaga í rakarastofu í borginni og uppgötvaði þá að húfunni hafði hann týnt á Bláfjallasvæðinu rúmri viku fyrr. Þriðja húfan týndist svo norðvestan við Einbúa, sunnan við Kastið, fyrir stuttu. Hennar er vænst í hús innan tíðar.
Lygilegasta sanna sagan er þó sú er segir af FERLIRsfélaganum, sem varð það á að stíga óvart með annan fótinn fram af snjóhengju á bjargbrún. Honum til happs náði hann að grípa í húfuderið og að hanga á því nógu lengi til að geta stigið skrefið til baka á fast. Síðan hefur hann jafnvel og sofið með húfuna – svona til öryggis…
Námskeið í rötun
Litla ferðafélagið í Bolungarvík
Ferðafélag Ísfirðinga og tvö fyrri líf þess eru ekki einu ferðafélögin sem stofnuð hafa verið á norðanverðum Vestfjörðum. Á fyrri hluta 20. aldar varð til ferðafélag í Bolungarvík. Hér er örlítill fróðleiksmoli um það. Hann er fenginn úr minningargrein um Guðmund Pálsson, stofnanda félagsins. Jónatan Einarsson, vinur hans, ritaði:
“Á milli heimila okkar var mikill samgangur og vinátta. Við Guðmundur vorum leikfélagar og stofnuðum ásamt fleiri ungum strákum Litla ferðafélagið sem stóð fyrir útilegum, fjallaferðum, skíðaferðum o.fl. Með því fórum við í margar ógleymanlegar ferðir, klifum flest fjöll í kringum Bolungarvík, fórum í útilegur víðsvegar um Ísafjarðardjúp og í hrikalegri náttúru Vestfjarða dreymdi okkur marga framtíðardrauma. Upp úr ferðafélaginu var stofnað Skátafélagið Gagnherjar og var Guðmundur aðalhvatamaður þess og fyrsti formaður. Guðmundur var alla tíð mikið náttúrubarn og útivistarmaður og í skátafélaginu gat hann sameinað það áhugamál sitt og þá lífsstefnu sem hann alla tíð hafði í heiðri, að ganga aldrei á bak orða sinna. Guðmundur var einnig virkur félagi í Ungmennafélagi Bolungarvíkur og formaður íþróttaráðs um árabil.”
Snæfjallaströnd – Möngufoss
Möngufoss, enn í klakaböndum!
Ferðalangurinn og umgengni um landið
- Göngum ávallt frá áningarstað eins og við viljum koma að honum.
- Skiljum hvorki eftir rusl á víðavangi né urðum það.
- Kveikjum ekki eld á grónu landi.
Bókin í notkun
Varúð – VÍDEÓ (með fögrum og fölskum söng)
Saga söngbókarinnar
Meðlimi ferðafélagsins langaði í söngbók. Þegar til voru peningar og ekki enn komið kóvít létu þeir verða af því. Skipuð var ritnefnd með formanni og ritara félagsins og einum óbreyttum meðlimi. Síðastnefndur, Ómar Smári Kristinsson, stýrði verkinu og safnaði mestu í það og fékk meira að segja borgað fyrir það. Það fékk kona hans, Nína Ivanova, reyndar líka. Hún sá um alla myndvinnslu og umbrot og að koma verkinu til prentara. Allt ferlið, frá því að ákveðið var að láta til skarar skríða uns bókin var komin í hendur fólks tók örfáa mánuði.
Líkt og gengur og gerist með söngbækur eru söngtextar í þessari. Sumar söngbækur hafa gítargrip. Ekki þessi. Hver nennir svosem að dröslast með gítar í gönguferðir? En það er ýmislegt í þessari bók sem ekki er að finna í venjulegum söngbókum. Hingað og þangað um bókina má lesa eitthvað fræðilegt svosem um söngiðkan og ferðamennsku á Vestfjörðum í gegnum tíðina eða hvernig haga skuli ferðum í samtímanum. Það eru líka gamanmál einsog öfugmælavísur, eða útúrsnúningarnir hans séra Péturs; pétrískar útgáfur á orðum sem tengjast ferðalögum. Trúlega er þetta eina söngbókin í heiminum sem skreytir sig með töflum og gröfum. Talnasukkið í bókinni er tengt virkninni í félaginu (fjöldi ferða eftir árum og svoleiðis gotterí) eða einhverjar landfræðilegar vestfirskar staðreyndir.
Meginkaflarnir í bókinni heita: Íslensku lögin okkar, Vestfirsku lögin okkar, Vestfirsku útlensku lögin okkar og Útlensku lögin okkar. Að minnsta kosti helmingurinn af okkar hjartkæru partýsöngvum er nefnilega af erlendum uppruna. Því er ekkert verið að leyna í söngbókinni. Þvert á móti er upprunans getið. Textinn er birtur bæði á íslensku og á upprunamálinu. Sum tungumál eru Íslendingum ekki töm, svo sem þýska og rússneska. Þá birtist þriðji textinn sem er hljóðskrift uppá íslensku af upprunatextanum. Útlensku textarnir eru með áherslumerkingum svo fólk viti hvar löngu tónarnir eiga að vera.
Þegar þetta er ritað, í febrúarlok 2021, er söngbókin tæplega eins árs gömul. Hún hefur lítið verið notuð, því það kom kóvít sem eyðilagði öll partý og stóran hluta af gönguferðum. Samkvæmt öruggum heimildum hefur bókin þó verið notuð í smærri hópum á óopinberum vettvangi og gefist vel. Það er von okkar sem stöndum að útgáfu bókarinnar að hún reynist gott veganesti í gönguferðunum og að fólk skemmti sér með söngins gleði. Þá er tilganginum (með þeirri ferð sem hófst með) útgáfu hennar náð.
Boðskapurinn á kápu bókarinnar
Eins og sannri bók sæmir, þá heitir hún eitthvað: Söngbók Ferðafélags Ísfirðinga, og hefur undirtitil: Lífsins gleðisöngvar með gamansemi og alvöru í bland. Svo er fuglasöngurinn skráður við hlið teikninga af fuglum: skrækhúhúhúhúbíbískrítiríbígarggarggargkrúnkrúnkkrúnkkráklúkkbílívitbílívitbílívitblíbbblíbbblíbbkríkríkríkrajibbíjibbídýrðindýrðin.
Baksíðutextinn er nokkurskonar ljóð eftir Nínu Ivanovu, hönnuð og uppsetjara bókarinnar:
Ferðafélag Ísfirðinga er félag sem á ekki hús en á sjálfa jörðina fyrir gólf, himininn fyrir þak og vestfirsku fjöllin fyrir veggi. Þetta rými á að fylla með söng.
Í frjálslegri meðferð laganna er gott að hafa texta. Þá þekkist hvaða lag er verið að syngja.
Sum lög eru farfuglar; skriðu úr eggjum sínum í öðrum löndum en settust að á Íslandi og í íslenskum hjörtum. Þessi bók sýnir lagatextana í upprunaútgáfu og á íslensku.
Eins og tilheyrir á gönguferðum, þá eru teknar nestispásur. Pásurnar í þessari bók eru fullar af fróðleik og skemmtiefni, aðallega um Vestfirði og ferðalög um þá. Fínt nesti það.
You must be logged in to post a comment.