.
FJALLAFANG

  Landmannalaugar.info Google

 

 


 

Saga Fjallafangs 

Upphafið:

Allt byrjaði þetta með ævintýramennsku og þannig er það reyndar enn. 

Það var árið 1992.  Það vantaði fólk til að grisja framvötn Landmannaafréttar, því þau höfðu verið eyðilögð með bleikjusleppingum, nokkrum áratugum fyrr.  Veiðifélag sveitarinnar auglýsti eftir áhugasömu fólki.  Fjórir hópar ákváðu að reyna. 
Einn þeirra samanstóð af Gíslholtssystkynunum Palla, Sverri, Smára og Helgu, ásamt Tolla, manni Helgu, og Burkna, syni Palla. 

Í Gíslholti hefur verið stunduð silungsveiði, kynslóðum saman, þannig að ekki skorti bát og veiðarfæri. 
Við héldum líka að við kynnum þetta allt, en Bjarni Jónsson fiskifræðingur kom og afsannaði það.  Hann kenndi okkur glæsilega meðferð, flökun og frágang á ferskri bleikju.  Hún var nefnilega seld á dýr hótel í Tékklandi og Hollandi. 

Til þess að bleikjutittirnir okkar gætu orðið að slíkri lúxusvöru, urðum við að geta selt hana, en til þess urðum við að vera fyrirtæki og þannig varð Fjallafang til. 
Vatnafang hét móðurfyrirtækið sem tók við fiski veiðibænda og kom honum úr landi.  Þrisvar í viku skrölti Tolli ofan af Landmannaafrétti niður að Apavatni í Árnesþingi, með bleikjutitti sem einusinni hefðu ekki talist mannamatur. 

Bjartsýnin ætlaði okkur lifandi að drepa.  Við reistum verstöð við suðurenda Eskihlíðarvatns, þar sem bæði var góð bátahöfn og rennandi ferskvatn, auk þess sem Eskihlíðarvatn var annað tveggja vatna sem okkur var úthlutað.  Hitt var Löðmundarvatn
Ástandið á fiskinum var eymdarlegt og við réðumst strax í fjöldamorð með netum.  Fyrsta árið veiddum við þannig rúmlega 20.000 bleikjur úr Eskihlíðarvatni einu! - og reyndar næsta ár líka.  Veiðigleðin og draumsýnin um boldungsfisk framtíðarinnar hélt okkur að verki í 15 - 18 tíma á dag. 

Launin fyrir seldan afla dugðu ekki fyrir útlögðum kostnaði.  En þetta var gaman.  Fjöllin eru frábær staður.  Við prófuðum veiði í öllum vötnum sem aðkeyrsla var að. 
Gesti dreif að til að skoða ævintýrið.  Við kynntumst öðru fjallaliði í Landmannahelli og Landmannalaugum og tókum þátt í allskonar sprelli. 

Við gistum í lítilli Benz-rútu, þannig að við lifðum eins og sardínur í dós (eða bleikjur í kæliboxi). 
Árið eftir gaf veiðifélagið okkur móel, sem annars stóð til að henda.  Við skiptum um það sem ónýtt var, innréttuðum það flott, settum það á vörubílsgrind og drógum á fjöll.  Þar með bjuggum við eins og fínt fólk. 

En það var ekki allt upp á við.  Bleikjunni gekk hægt að stækka og fitna.  Vatnafang fór á hausinn.  Vinnuþrælkunin varð nýjabruminu smámsaman yfirsterkari. 
Hugsjónum og fórnfýsi eru takmörk sett, en þrjóska og fjallabaktería hélt sumum okkar áfram við efnið.

Breytingatímabilið:

Hví að vera að sækja vatnið yfir lækinn. 
Þó fiskurinn hætti að fara til útlanda, eftir fall Vatnafangs, þá koma útlendingar upp á Landmannaafrétt.  Hvað er æðislegra en nýveiddur fiskur úr vötnunum í kring? 
Annað árið á fjöllum færðust viðskiptin smám saman frá Tékklandi og Hollandi til Landmannalauga
Fararstjórar eða bílstjórar pöntuðu fiskinn símleiðis og við mældum okkur mót við þá, oftast í Landmannalaugum.  Yfirleitt vorum við með umframfisk.  Við röltum með hann milli tjalda og buðum til kaups. 

Og þá er komið að einni aðal breytunni í sögu Fjallafangs.  Það var þannig að Smári kynntist Nínu og hún kom inn á fjórða sumri fyrirtækisins.  Nína var ekki gefin fyrir að bera þunga hluti milli tjalda.  Auk þess voru margir nýbúnir að borða, þannig að þetta voru fýluferðir í bland. 
Ef fólk er svona sólgið í fiskinn, því þá ekki að vera með fasta áætlun og láta fólk vita af henni, þannig að það gangi að nýmetinu vísu?  Þetta var gert og klukkan sex á hverju kvöldi myndaðist löng biðröð svangra ferðalanga bak við lítinn grænan Landróver á planinu í Landmannalaugum.

Marga vantaði eitthvað til að steikja fiskinn upp úr.  Aðrir geta helst ekki borðað máltíð án þess að hafa með henni brauð.  Við hlustuðum á bænir fólks og reyndum að útvega því það sem það vantaði.  Eftir því sem fólk sá fleiri vörutegundir hjá okkur, þeim mun meira vantaði það.  Þetta vatt hratt upp á sig og Landróverinn "sprakk".

Búðin:

Þessi kafli gæti líka heitið "Breytingatímabilið"
Bæði húsakostur, þ.e.a.s. bílakostur verslunarinnar hefur tekið stakkaskiptum, sem og meðlimafjöldinn.  Helga og Tolli sprungu loks á limminu, þegar verslunarstörf útheimtu orðið jafn mikla vinnu og veiðar og verkun (Palli og Burkni voru hættir fyrr).  Tolli var bókstaflega ekki starfinu vaxinn, því hann var of stór fyrir okkar fyrstu verslun með þaki, sem var afturendi Hanomag-trukks.  Hann var kominn með hálsríg að hausti. 

Þó fólkinu fækkaði, þá jukust umsvifin og Hanomaginn varð bráðlega líka of lítill.  Það fannst rútuhræ vestur á fjörðum og eftir nokkur kraftaverk var hún orðin að ökufærri verslun í Landmannalaugum

Nú var svo komið, þar sem Fjallafangs-fólki er skammtaður jafn mikill tími á sólarhring og öðru fólki, að það hafði um þrennt að velja:  hætta við allt, hætta með búðina eða hætta veiðum. 
Það valdi síðasta kostinn, sem var ekki slæmt, því á sama tímabili kynntumst við ungu áhugasömu fólki sem tók við aðstöðunni hjá okkur og tók upp þráðinn í grisjunarvinnunni, sem þó var farin að bera nokkurn árangur. 

Það er ekki bara líkamleg næring sem fólk vanhagar um á fjöllum. 
Til að seðja fróðleiksþorsta fólks, komum við okkur upp annarri rútu og höfum í henni upplýsingamiðstöð.  Hún eykur ekki mikið á vinnuálagið, og enn síður tekjurnar, en er á margan hátt gagnleg, bæði búðarfólki og gestum. 

Þökk sé því að við völdum að hætta veiðum en halda búð, að við sáum loks laun í formi peninga.  Þó að mánaðarlaunin séu ekki hálfdrættingur á við lágmarks verkamannalaun, þá er það samt góð tilbreyting frá fyrstu sjö árunum, að enginn fékk svo mikið sem krónu. 
En hvað? - allir eiga sín áhugamál og sumir borga meira með þeim en við höfum gert.
 
kort 

 

 

 

 


 
   Nína Ivanova & Ómar Smári Kristinsson © 2003—2011


last updated - 01.10.2011