All about and around Landmannalaugar in the highlands of Iceland. 
    Built on personal experience and taste of insiders.
    Though experience is big and taste is great, try other issues as well, to be sure.
  
             Landmannalaugar.info Google


Vegaslóðanefnd.

Nú verður gert átak í að sporna við utanvegaakastri.   Umhverfisráðherra er búinn að skipa nefnd sem kallast Vegaslóðanefnd.   Hlutverk hennar er að koma skikki á þessi mál.   Eitt aðal vandamálið sem fyrir hendi er, er það hversu illa hálendisvegakerfið er skilgreint.   Margir vegir sem notaðir eru, hafa engan sem ber ábyrgð á þeim.   Og svo er það eilífðarspurningin: hvað eru vegir og hvað ekki?   Landverðir og lögregla eiga ekki gott með að tala fólk til við þær aðstæður.         

Nú er kominn skriður á skilgreiningarnar - og viti menn, það var byrjað í Rangárþingi ytra, en þar eru Landmannalaugar og Friðland að Fjallabaki.   
Í þessu sveitarfélagi eru til allar tegundir hálendisumferðar nema þær sem tengjast hreindýraveiðum.   Auk þess er hvergi á hálendinu eins mikill umferðarþungi.   Það ríkti nær alger samstaða meðal heimamanna um nauðsyn verkefnisins (nokkrir þeirra hafa reyndar um árabil hvatt til einhvers slíks).   Það er meiningin að þetta sveitarfélag og síðarmeir öll hin, sem að málinu koma,   vinni forvinnuna, þ.e. að kortleggja sitt svæði og komast að því hvaða slóðar þurfi að vera opnir og hverjir ekki.  

En slóðar eru svo margvíslegir.   Til eru þeir slóðar sem nauðsynlegir eru fyrir ákveðna starfsemi en sem almenningur á ekki erindi inn á.   Þess vegna er ætlunin að vera með tvær tegundir opinna slóða.   Annars vegar fyrir almenning og hinsvegar "hálfopna".   Þeir eru t.d. tengdir viðhaldi á virkjanamannvirkjum, vatnamælingum eða smalamennsku.   Til þess að mega nota þá, þarf sérútbúin ökutæki (breið dekk), uppáskrifað plagg frá yfirvöldum og merki utan á ökutækinu um að það sé þarna í rétti.  

Sýslumannsembættin eru flest æst í að taka á hálendisvegamálum en hafa ekki haft mikið fjárhagslegt svigrúm til þess.   Gerð hefur verið tilraun með sérstakt hálendiseftirlit fyrir mörgum árum, sem þá reyndist of kostnaðarsamt.   En nú eru nýjir tímar með aukinni þörf og vonandi breyttu viðhorfi í kjölfar þessa vegslóðaátaks.   Lögreglan í Árnes- Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslum hafa haft ákveðið samráð um eftirlit, undanfarin ár, en heyrst hefur að þetta eftirlit með svæðinu muni verða stóraukið.

            Auk sýslumanna og sveitarstjóra hefur vegslóðanefndin eða ætlar að, setja sig í samband við ferðaþjónustuaðila.   Þar er fyrst að nefna bílaleigurnar, því þær hafa ekki sinnt upplýsingum sem skyldi.   Algengt er að ferðafólk komi til landsins með ranghugmyndir (t.d. rangtúlkun á hugtakinu "off-road").   Þá þarf að endurnýja samning við Norrænu, um upplýsingar til þeirra sem koma með eigin bíla, en þær upplýsingar hafa verið af afar skornum skammti hin síðari ár [innskot frá sjálfum mér:   það ætti að upplýsa Íslendinga betur með því að taka hálendisaksturinn fyrir í bílprófsnáminu].   Verið er að vinna að einföldum áróðursbæklingi, sem sérhvert mannsbarn á að skilja.   Grunnurinn að honum var unninn af ferðamálaaðilum á Fljótsdalshéraði og hefur reynst vel þar í sveit.   Ætlunin er að vera með áróðursbæklinginn, í sinni lokamynd, til dreifingar í upplýsingamiðstöðinni í Landmannalaugum, en einnig er mjög líklegt að hann megi nálgast í Landmannahelli og í Hrauneyjum.

            Eftir því sem ég best veit, eru Landmælingar Íslands með í ráðum við þetta risavaxna verkefni.   Það er ekki ónýt framtíðarsýn að geta treyst þeim landakortum sem ferðast er eftir.   Það hefur því miður ekki verið raunin hingað til, þegar kemur að akstri á hálendinu.   Vonandi verður bundið í lög að allir kortaútgefendur haldi sig við niðurstöður vegaslóðavinnunnar.

            Upplýsingarnar í þessari grein, fyrir utan það sem ég vissi sjálfur, eru úr Bændablaðinu, 9. nóv. ´04 og úr samtali við Árna Bragason, formann vegaslóðanefndarinnar, 15. nóv. ´04.   Ó.S.K.

 


vegur
 
   Nína Ivanova & Ómar Smári Kristinsson © 2003—2011


last updated - 01.10.2011