Skerjaláki
Einn margra skemmtilegra karaktera sem skotið hafa upp
kollinum í Landmannalaugum er Skerjaláki. Hann er finnskur
og heitir Dan. Dani að nafni Jan var þá að hjálpa okkur
í búðinni þannig að það var allt of ruglingslegt að
Dan héti Dan. Við völdum honum því þetta viðeigandi
nafn fyrir Finna sem var með annan fótinn uppi í Hrafntinnuskeri.
Þar stundaði hann ljósmyndun.
Hann
kom til landsins til að ljósmynda og talaði mikið um
ljósmyndun en kom sér sjaldan til þess að taka myndir.
Daglega spurði hann um veðrið og hvort ekki væri líklegt
að nú væri góð birta uppi í Hrafntinnuskeri og yfirleitt
entist honum dagurinn í þessar vangaveltur.
Dag
einn þurfti ég að sækja kælisnjó fyrir fisk. Þegar
Skerjaláki kom að tala um birtuna í Hrafntinnuskeri
og vildi flýta sér þangað, ákvað ég að sækja snjóinn
á akleiðinni þangað. Hann gæti þá fengið far með mér
og komist fyrr á leiðarenda. Sérhver mínúta í réttu
ljósi getur skipt sköpum fyrir ljósmyndara. Ég bauðst
til að hjálpa honum við að taka saman tjaldið, sem enn
stóð uppi. Hann "rétt skrapp" til að kveðja skálaverðina
og þegar hann kom til baka var ég búinn að sortera óhreinu
fötin frá öðrum viðlegubúnaði, ganga frá dótinu, taka
niður tjaldið og pakka því saman. Þá þurfti hann að
fara á klósettið og að lokum lenti hann á kjaftatörn
við einhvern um vatnsvarnir á gönguskóm. Þá dró ég
hann upp í Landróver. Auðvitað var orðið skýað við
Hrafntinnusker, þegar ég setti hann út í hlíðum Mógilshöfða.
En það gerði ekkert til. Það var skemmtileg stelpa
með í ferðinni sem gekk með honum síðasta spölinn.
Einhverju sinni sat Skerjaláki við útiborðið hjá búðinni.
Þá heyrði hann að hitt fólkið við borðið voru Danir.
Hann lifnaði allur við, gaf sig á tal við fólkið og
sagði því að það væri Dani að vinna í búðinni: "Jan,
þekkið þið Jan?" Svo þaut hann inn í búð og sagði "Jan,
hugsaðu þér, það eru Danir úti. Ætlarðu ekki að fara
út að tala við þá?"
Himbrimi
Himbrimi er skoskur piltur að nafni Johnny.
Íslenska nafnið sitt fékk hann þegar hann var að herma
eftir himbrimum á Eskihlíðarvatni. Þegar hann fékk
að vita hvað fuglarnir hétu, fannst honum það svo fyndið
og fallegt nafn að það festist við hann sjálfan.
Himbrimi
hermdi eftir öllu. Það er ekki til sú mannvera sem
hefur meira gaman af umhverfi sínu en hann, því hann
sá kímnina í öllu. Og svo kom hann til Landmannalauga,
sem er heimsins skrautlegasti suðupottur. Það er því
ekki skrítið að aðeins tveimur vikum eftir að hann fór
heim til sín kom hann aftur. Hann átti svo margt ógert.
Hann slóst í hóp með göngufólki til að ganga eins og
það (aftastur). Þegar hann heyrði skyldurækin hlátrasköll
úr eldhússtjöldum á kvöldvökum, laumaðist hann upp að
tjöldunum til að hlæja með. Hann stillti sér stoltur
upp við alla flottustu jeppana sem hann fann á svæðinu.
Hann sat í lauginni og blaðraði eins og hitt fólkið,
þó hann væri ekki að tala við neinn. Hann hermdi eftir
dýrum, bílum og fólki og fór í hlutverkaleiki við viðskiptavinina
þá daga sem hann vann í búðinni. Þegar hann vann við
að ræsta salernishúsið hermdi hann mest eftir sjálfum
sér, því hann var svo flottur í frystihúsastígvélum,
með gula gúmmíhanska og vasadiskó sem hann gaulaði með
(hann var reyndar tónlistarmaður og lagasmiður). Þegar
hann vann við fiskveiðar einbeitti hann sér að því að
drepa fiskana rétt, til að lina þjáningar þeirra og
lagði afar hart að sér við að reyna að trúa lygasögunum
sem ég dældi í hann. Þá stóð ég á hátindi þeirrar snilli,
því sköpun getur verið smitandi. Stundum dregur það
úr manni allan mátt að vera meðal snillinga. Himbrimi
var sem betur fer ekki sú týpan.
Mótorhjólafólk
Það þarf víst varla að taka það fram að mótorhjólafólk
er jafn ólíkt innbyrðis og annað fólk. Þegar það þeysist
inn á hálendið í stórum flokkum virðist það allt vera
eins en svo er nú alldeilis ekki. Hóparnir sjálfir
eru líka gjörólíkir. Mótorhjól og mótorhjól er ekki
það sama. Sniglarnir koma árlega inn í Landmannalaugar.
Töff. Lykt af svörtu leðri og léttri þynnku. Ég hef
ekki náð að kynnast þeim en því fer svo fjarri að þeim
fylgi einhver hræðslufnykur eins og hægt væri að ímynda
sér að fylgdi samtökum eins og Hells Angels.
Hvort
sem það er tilviljun eða ei, þá eru mótorkrossarar á
ferðinni sömu helgina og Sniglarnir ár hvert. Þetta
er allt annar þjóðflokkur. Þeir gista í Hrauneyjum.
Þaðan spýtast þeir á ógnarhraða í allar áttir en þó
mest inn á friðlandið, sem missir við það titil sinn.
Þessir skærbröndóttu geitungar æra öll skilningarvit.
Þeir keyra svo hratt að hugsunin nær ekki að fylgja
þeim. Í fyrsta lagi skaffa þeir öllum góðum vættum
nóga atvinnu við að koma í veg fyrir að þeir drepi sjálfa
sig og aðra í hrönnum. Í öðru lagi gengur þeim afar
illa að læra á það hvað sé vegur og hvað ekki. Þeir
eiga sínar leiðir sem annað fólk var búið að leggja
af fyrir áratugum saman eða yfirhöfuð aldrei notað.
Svo þegar þeir nota réttu vegina ná þeir ekki beygjunum
eða keyra meðfram þeim á löngum köflum.
Afleggjararnir
að suðurhluta Eskihlíðarvatns urðu einu sinni fyrir
heimsókn svona hóps. Við það breikkuðu þeir úr tveimur
metrum upp í 40 metra að meðaltali og dýpkuðu verulega.
Þessi ágæti sandvegur sem búið var að hefla og troða
allt sumarið varð eftir árás þessa að torfærubraut sem
nota þurfti lága drifið á. Athyglisverð voru viðbrögð
laganna varða þegar þeir voru kallaðir á vettvang: Jú,
þeim þótti þetta ekki gott, að vera að keyra hjól sem
ekki voru með númeraplötur.
Það
er svosem hægt að setja sig í spor þessa fólks. Það
hlýtur að vera stórkostleg tilfinning að skynja hraðann
og kraftinn og finna fyrir lífinu sjálfu með því að
leggja það undir. Svo æsast menn upp við það að vera
í hóp með öðrum æstum mönnum. Það er örugglega ekki
bara vitið sem ekki nær að fylgja með heldur líka heimsins
böl og áhyggjur. Er þetta ekki frelsi?
Hvað
sem öllu frelsi líður, þá mun ég aldrei í lífinu geta
fyrirgefið dreng andsk..djö..helv.. fíflinu sem ók upp
hlíðar Norðurnáms og skildi eftir sig ævarandi undirskrift.
Ekki var hópurinn að æsa hann. Mér skilst að hann hafi
verið með afa og ömmu! Hamingjunni sé lof að ég var
ekki þar. Þá væruð þið að lesa skrif dæmds fjöldamorðingja.
P.S.
Ég held að ég verði að ítreka þetta með fjölbreytni
mannflórunnar, áður en ég eða einhver sem ég æsi upp
fer út og krossfestir næsta mótorkrossara. Auðvitað
er ljúflingsfólk í þeirra röðum. Þeir eiga sínar torfærugryfjur
og trúlega dettur flestum þeirra ekki til hugar að stunda
torfærur annarsstaðar en þar. Að fara að myrða þetta
fólk væri álíka gáfulegt eins og að skjóta alla jeppaeigendur
eftir að nokkrir Kanar festu jeppana sína á Reykjanesinu,
með tilheyrandi landspjöllum.
P.S.S.
Enn verð ég að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning.
Ég lít ekki á alla Kana sem heilalausa hálfvita, þó
að slíkar mannlýsingar eigi vel við marga úr þeirri
átt.
Smári
|