Egg
Addi,
kærasti og vinnufélagi hesta-Guðnýjar gaf okkur, Nínu
og Smára, egg. Við misskildum einhver skilaboð og
héldum að við þyrftum að fara með eggin með okkur til
Landmannalauga. Við settum þau í bílinn, ásamt öðrum
varningi, yfirgáfum bækistöðvar okkar og þeystum eftir
"hraðbrautinni" í átt að vinnustað okkar. Þá fundum
við vonda lykt. Hvorugt okkar hafði verið að leysa
vind. Þetta var blessunarlega ólíkt því að vera lykt
af einhverju biluðu í bílvél.
Eggin!
Hafði Addi verið að gefa okkur fúlegg? En þau þurfa
að brotna til að gefa frá sér svona daun. Bæði er Smári
bílstjóri góður og sandbrautin nýhefluð og fín. Kannski
datt eitthvað ofan á þau.
Við
ákváðum að fara út til að komast betur að eggjunum,
sem voru afturí. Þegar við opnuðum dyrnar, þá fyrst
varð lyktin vond. Átti ekki lyktin að vera verri innandyra
en utan bíls? Nei, ekki í þessu tilfelli. Þetta var
ekki Adda að kenna heldur eldsumbrotum í Skaftárjökli.
Það var komið hlaup í Skaftá og austanvindurinn bar
okkur fréttirnar af því. Við bara misskildum þær aðeins
til að byrja með.
Eggin
fóru með okkur til baka um kvöldið og sameinuðust tómötum
og sveppum á pönnu. Þau voru góð.
upp
Tungumálaörðugleikar
í eyðimörkinni
Eitt sumarið voru gestir hjá okkur á fjöllum. Þetta
voru rússnesk hjón. Konan féll gjörsamlega fyrir landslaginu.
Væri veðrið ekki þeim mun verra, þá gekk hún daglega
á milli bækistöðvar okkar við Eskihlíðarvatn og inn
í Landmannalaugar. Þetta er 9 km loftlína og yfir hraun
og sanda að fara.
Að
frátöldum smalamennskum á haustin, þá kemur varla fyrir
að nokkur manneskja leggi leið sína um hálfa hennar
gönguleið.
Dag
einn uppi á svartri sandöldu, fjarri öllum vegum og
mannvirkjum, hittir hún þrjár manneskjur, tvo hvíta
menn og einn svartan. Þetta fólk sneri landakorti á
alla kanta og var greinilega að villast. Þau reyndu
að fá rússnesku vinkonu okkar til að segja þeim til
vegar, en hún kann ekkert í ensku. Soldið kann hún
fyrir sér í finnsku og frönsku og reyndi að nota þau
mál. Það gekk ekki.
Þarna
stóðu þessar fjórar manneskjur á sandöldunni og botnuðu
ekki neitt í neinu. "Gospodí moj" muldraði sú rússneska,
biðjandi guð að hjálpa sér. Það dugði. Sá svarti talaði
reiprennandi rússnesku. Þökk sé námi hans í Moskvu
að honum tókst að rata til Landmannalauga.
upp
Tjald
í eyjunni
Á bernskuárum Fjallafangs, meðan það sinnti veiðum
af krafti og lét búðarmál eiga sig, voru skálaverjur
í Landmannalaugum þær Birna og Sista. Þær fengu endalaust
skemmtilegar hugmyndir og framkvæmdu margar þeirra.
Þá
var landvörður á friðlandinu Jón Gauti. Hann var ekki
síður áhugasamur um sitt starf, reyndar svo mikið að
stundum sauð upp úr. Eðli hans var að taka hlutverk
sitt af alvöruþunga. Eðli Birnu og Sistu var að stríða
fólki og eðli Fjallafangsmeðlima var að vera ávallt
reiðubúnir. Þannig varð þessi saga til.
Birna
og Sista fundu gamalt tjald í skúrnum hjá sér og fóru
að velta því fyrir sér hvað hægt væri að gera skemmtilegt
við það. Á sömu stundu komu Fjallafangsmennirnir Sverrir
og Tolli með fisk. Saman brugguðu þau ráð. Í skjóli
nætur reru þau í fleyi Fjallafangsmanna út á Frostastaðavatn
og út í eynna sem þar er. Þar reistu þau tjaldið og
fóru svo sporlaust.
Daginn
eftir var Jón Gauti í eftirlitsferð. Þegar hann kom
upp á Frostastaðaháls blasti eyjan með tjaldinu við
beint fyrir neðan. Þá mælti hann hin fleygu orð sín:
"Nú er um að gera að halda ró sinni, nú er um að gera
að halda ró sinni." Það gerði hann og hugsaði mikið
og rökrétt. Hann vissi af mönnum í grenndinni sem væru
með bát, þannig að hægt væri að líta nánar á þetta mjög
svo dularfulla mál. Það voru náttúrulega Fjallafangsmenn.
Hann fór til þeirra og bað þá um þann stóra greiða að
fara með sér út í eyju. Það gerðu þeir, grafalvarlegir
og hjálpfúsir. Saman læddust mennirnir þrír að tjaldinu,
spyrjandi á ýmsum tungum hvort þar væri einhver, bönkuðu
varlega í tjaldsúluna og áræddu loks að gægjast inn.
Þar var enginn. Það fannst heldur engin skýring á þessum
dularfullu atburðum.
Maraþon
fyrir ástina
Það eru 11 km upp og niður brattar brekkur á milli
skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum og í Hrafntinnuskeri.
Duglegasti skálavörður allra tíma í Hrafntinnuskeri
var Einar Valur, ungur, léttur og lappalangur maður.
Hann hljóp oft á viku á milli staða. Aldrei vantaði
neitt á vinnustað hans, og ef það gleymdist, þá bara
hljóp hann eftir því daginn eftir.
Málið
var nefnilega það að niðri í Landmannalaugum var þá
ung og falleg skálaverja, Regína Hreinsdóttir. Það
er rómantíkinni í Landmannalaugum að þakka að nú er
í heiminn kominn Styrmir nokkur Einarsson, sonur Regínu.
Það
er þeirri sömu rómantík að þakka að Einar Valur heitir
ekki lengur Einar Valur meðal margra vina sinna, heldur
Hrafntinni, þó hann sé nánast hvíthærður. Smári
upp
|