All about and around Landmannalaugar in the highlands of Iceland. 
    Built on personal experience and taste of insiders.
    Though experience is big and taste is great, try other issues as well, to be sure.
  
        Landmannalaugar.info Google
   Sögur/ Nöldur og nagg


Nöldur og nagg


 

Sundföt

            Einu sinni var dónalegt að fara í sundfötum í laugina.  Nú er orðið dónalegt að vera ekki í þeim. Ég veit ekki hvað gerðist en hef heyrt að einhverjar ferðaskrifstofur reki áróður gegn nekt, trúlega sama fólkið og segir að ekki megi nota sápu í lauginni, það sé svo ónáttúrulegt. 

Þegar ég byrjaði að vera fastagestur í lauginni fyrir rúmum áratug, ásamt félögum mínum í Fjallafangi, var þessi sundfataómenning skollin á.  Sem eðlilegu fólki sæmir, tókum við ekki þátt í þessu og fórum oní á spottanum.  Síðan hefur ástandið versnað.  Spéhræðslan í heiminum vex og fólkinu í Fjallafangi hefur fækkað.  Við Nína nennum varla lengur að standa í þessari andspyrnuhreyfingu lengur.  Því færri sem stunda andóf, þeim mun hjákátlegri eru þeir í augum heimsins.  Ætli endi ekki með því að við verðum kærð fyrir klám. 

Enn er til nokkurskonar millibilsástand.  Það er pallurinn þar sem skipt er um föt.  Hann er undir berum himni, óvarinn fyrir veðri og augnagotum.  Því meira tabú sem nektin er, þeim mun meira er spennandi að sjá hana og þá verður fólk enn feimnara.  Þetta er vítahringur.  Kannski ekki alslæmur, því það hefur verið spaugilegt og fróðlegt að fylgjast með því hverskonar tækni fólk hefur komið sér upp við að þurrka sér og skipta um föt án þess að sýna "óviðurkvæmilega" hluti líkamans.  Þarna á pallinum sannast að manneskjan er skapandi og uppfinningasöm. 

Síðan að stóra salernishúsið reis í Landmannalaugum hafa margir tekið til þess ráðs að teppa klósett og sturtuklefa til að hafa fataskipti og hlaupa síðan alla leið út í laug og til baka aftur að baði loknu.  Vonandi fótbrýtur sig enginn á þessu. 

Nú heyrast æ oftar þær raddir að koma þurfi upp almennilegum fataskiptiklefum á laugarbarminum.  Ef farið verður eftir þeim röddum, verður ekki bara búið að koma í veg fyrir að mannleg náttúra sjáist, heldur líka hin náttúran, þessi sem fólk kemur um langan veg til að sjá.  Sjóndeildarhringurinn úr lauginni hefur heillað milljón manns.  Ef það er svona mikið atriði að fela barm, má það ekki verða til þess að líka sé verið að fela Barm.

 

Krónur og lítilsverðir hlutir

"Árið 1902 fóru aðrir þrír menn í eftirleit í snjólausu, bjartviðri og stillu.  Fóru þeir um allan afrétt á viku og fundu ekki nokkra kind.  En í þeirri ferð nutu þeir þess útsýnis af Torfajökli, sem þeim gleymdist ekki og er a.m.k. þeim, er hér segir frá, meira virði en krónur, sem væru gleymdar og komnar fyrir löngu í lítilsverða hluti."

Þessi tilvitnun er úr bók sem heitir Göngur og réttir og fjallar um það sem titillinn gefur til kynna.  Hér er bóndi að segja frá bændum.  Fyrir öld síðan fengu menn góðan pening fyrir að finna fé í eftirleit.  Samt urðu mennirnir svona ánægðir með ferðina fjárlausu.  Og mörgum áratugum síðar skilur hinn bóndinn þá svona vel.  Og í dag kemur fólk úr víðri veröld til að upplifa það sama og þeir, og borgar meira að segja með sér. 

Hér ætti að koma punktur á eftir þessari hugljúfu sögu.  En sumir vilja hafa strik á eftir henni - skammarstrik.  Já lesandi góður, hvort sem þú trúir því eður ei, þá er til fólk sem lætur sér detta í hug að reisa jarðvarmavirkjanir á Torfajökulssvæðinu, þið vitið, Hrafntinnusker og þar um kring! 

Langar þetta fólk svona mikið í krónur að það væri reiðubúið að fórna fyrir þær möguleika milljón manns til að upplifa sterk fagurfræðileg áhrif?  Eða er kannski búið að ljósmynda þetta svæði svo mikið að nú sé í lagi að eyðileggja það?  Fólk um víða veröld getur bara blaðað í auglýsingabæklingum um Ísland og skoðað þetta óspillta svæði þannig. 

Sagt hefur verið að fé (báðar merkingar þess orðs) hafi verið bændum (Íslandingum öllum í eina tíð) mikilvægara en allt annað.  Það er ekki endilega rétt.  Hvað er mikilvægast í hinu menntaða og tæknivædda velferðarþjóðfélagi nútímans?

Að gera rétt

            Mikið getur verið auðvelt að gera ekki rétt.  Hugsunarleysi er besta leiðin til að gera rangt. 

Þannig munaði minnstu að Fjallafang yrði að skrímsli.  Árum saman var þetta litla fyrirtæki búið að reyna að grisja vötnin á afréttinum.  Flökun og sala á smáfiski gaf lítið í aðra hönd.  Svo fór fisksalan í Landmannalaugum að vinda upp á sig.  Fólk fór að vanta brauð og mjólk með fiskinum og þetta þróaðist upp í það að verða vísir að búð.  Dæmið fór að verða spennandi og það kom lykt af peningum. 

Margir laðast að þessari lykt.  Svo var og um einn félaga okkar úr borginni, menntaðan bæði í viðskiptum og stjórnmálum.  Hann var hinn hjálplegasti og benti okkur á mörg ráð til að græða peninga.  Hann langaði að ganga í félagið.  Þetta fannst mér hin besta hugmynd, því ekkert okkar hafði vit á peningum eða öðrum pappírum (Nína var ennþá glæný í íslensku samfélagi). Auk þess væri fínt að hafa einn í Reykjavík til að gera innkaup og redda málum í byggð. 

En hamingjunni sé lof, þá eru ekki allir jafn fljótir að gleypa agn og ég.  Bróðir minn var ekki tilbúinn að hleypa ókunnugum í fyrirtækið (hann þekkti þennan mann lítið, nema helst af því að vera byrjaðan að stjórna áður en ákveðið var hvort hann fengi að vera með).  Atkvæði um inngöngu hans féllu jöfn og vinurinn fór í fýlu og hefur ekki talað við okkur síðan. 

Það getur verið auðvelt að gera ekki rétt, byrjaði ég sögu þessa.  Eftir því sem ég lít meira til baka til míns bjartsýna, orkufulla félaga, bissnessmannsins, minnist ég betur hugmynda hans um stórkostlega framabraut fyrirtækisins.  Safarík einokunaraðstaða, útvíkkun úr smábúð í stórmarkað og allskonar þjónustu.  Mig minnir að lúxushótel, malbikaðir vegir og flugvöllur hafi borið á góma í mestu bjartsýnisköstunum - eða voru þetta eftilvill raunsæisköst hjá honum?  Þessi skarpi og vel menntaði maður í viðskiptum og stjórnmálum, er hann svo frábrugðinn ýmsu skörpu og vel menntuðu fólki í landsins æðstu stöðum, með viðskipti og stjórnmál að atvinnu?

Hvað um það, nú líður okkur Nínu vel á fjöllum, þökk sé tortryggninni í bróður mínum.  Við stundum okkar litla búðarleik með lítilli innkomu og engum skuldum og finnst að við séum að gera rétt og komumst upp með það.  Ætli íslensku þjóðinni líði svona vel, eins og okkur Nínu, þegar fram líða stundir?

Hálendið heillar

            Í vetur las ég bók sem heitir "Hálendið heillar - þættir af nokkrum helstu öræfabílstjórum."  Þetta voru mest ævintýralegar lýsingar á jeppaferðum um vegleysur.  Þetta voru landkönnuðir lands vors.  Spennan og hrifningin leyndi sér ekki í sögunum.  Víða er því lýst hvernig mennirnir dáðust að hinum ósnortnu víðernum - en um leið hvernig þeir eyðilögðu þau.  Daglangt spól og festur á landsins viðkvæmustu svæðum þjónuðu stundum þeim tilgangi að hægt var að segja "nei, þessi leið er ekki góð, prófum aðra" eða "mikið er fallegt útsýni héðan". 

Það er ekki laust við að bókin sú arna hafi komið út á mér tárunum.  En þetta voru börn síns tíma.  Í eina tíð fóru líka dýrarannsóknir þannig fram að allt kvikt var skotið niður og svo var það skoðað með hrifningu og athygli.  "Til hvers eru fallegir staðir ef enginn sér þá?" spyrja margir.  Er til einhvers gagns að finna dropasteinshelli ef enginn má fara inn í hann, því þá myndi allt brotna í spón?  Til hvers að vera með fallegt hálendi ef enginn kemst þangað?  Þessa spyrja margir í dag og eru þess fullvissir að virkjanaframkvæmdir séu göfugar athafnir, fegurðinni til dýrðar, því þær geri almenningi kleyft að komast til áður torfarinna svæða.  Kannski voru landkönnuðir og hálendishetjur síðustu aldar ekki bara börn síns tíma, heldur líka okkar tíma. Smári


 

 

 

 

 

 
Ljótir andarungar
og litlar gular hænur
 
Örverpi
 
Blandaðir ávextir
 
 
 
   Nína Ivanova & Ómar Smári Kristinsson © 2003—2011


last updated - 01.10.2011